Stjórn knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, brást við kvörtun Orra Hlöðverssonar formanns knattspyrnudeildar Breiðabliks, formanns Íslensks toppfótbolta og stjórnarmanns í KSÍ, sem setti út á verklag stjórnar sambandsins við boðun stjórnarfunda og fleira, á stjórnarfundi sínum sem haldinn var miðvikudaginn 3. nóvember síðastliðinn.

„Fulltrúi ÍTF minnti á mikilvægi þess að viðhafa agað verklag við boðun stjórnarfunda og að gögn bærust stjórnarmönnum með nægum fyrirvara. Einnig kom hann inn á verklag við ritun og frágang fundargerða stjórnar og hvort tilefni væri til endurskoðunar á því," bókaði Orri á stjórnarfundi KSÍ þriðjudaginn 26. október.

„Í framhaldinu var rætt um fundargerðir stjórnar. Stjórn samþykkti að formfesta betur undirritun fundargerða stjórnar og varðveislu þeirra.

Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar en formenn nefnda/starfshópa fylgdu fundargerðum sínum úr hlaði. Þá var samþykkt að undir þessum lið á komandi fundum verði fluttar fréttir af starfsemi ÍTF," segir í fundargerð frá stjórnarfundi KSÍ sem fram fór 3. nóvember.