Tveir síðustu leikir íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í undankeppni EM 2021 eru gegn Svíþjóð. Dregið var í riðla í gær og leikjaniðurröðunin liggur nú fyrir.

Fyrstu tveir leikir Íslands í undankeppninni eru á heimavelli. Íslendingar mæta Ungverjum í fyrsta leiknum 29. ágúst og þann 2. september koma Slóvakar í heimsókn.

Því næst koma þrír útileikir í röð, gegn Lettlandi, Ungverjalandi og Slóvakíu. Ísland mætir svo Lettlandi á Laugardalsvellinum 4. júní 2020.

Þann 9. júní 2020 koma Svíar í heimsókn og undankeppninni lýkur í Svíþjóð 22. september 2020.

Níu riðlar eru í undankeppninni. Sigurvegarar riðlanna komast beint á EM 2021 sem og liðin þrjú sem eru með bestan árangur í 2. sæti riðlanna. Hin sex liðin í 2. sæti fara í umspil um síðustu þrjú lausu sætin á EM.

Leikdagar Íslands:

Ísland - Ungverjaland 29/08/19
Ísland - Slóvakía 02/09/19
Lettland - Ísland 08/10/19
Ungverjaland - Ísland 10/04/20 
Slóvakía - Ísland 14/04/20 
Ísland - Lettland 04/06/20
Ísland - Svíþjóð 09/06/20
Svíþjóð - Ísland 22/09/20