Divock Origi skoraði tvö marka Liverpool þegar liðið bar sigur úr býtum á móti Everton, 5-2, í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Anfield í kvöld.

Belgíski framherjinn var hetja Liverpool þegar hann skoraði dramatískt sigurmark í leik liðanna á sama stað í deildinni síðasta vetur.

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool hristi verulega upp í byrjunarliði sínu í leiknum en Xherdan Shaqiri sem lítið hefur spilað á leiktíðinni vegna meiðsla skoraði eitt marka liðsins og Sadio Mané sem lagði upp tvö mörk í leiknum bætti fjórða markinu við.

Tímamótaleikur hjá Liverpool og Klopp

Mané hefur nú lagt upp sex mörk í deildinni á keppnistímabilinu en hann og Trent Alexander-Arnold hafa gefið flestar stoðsendingar í liði Liverpool á tímabilinu. Andy Robertson kemur svo næstur með sínar fimm stoðsendingar.

Gini Wijnaldum sem var á sínum stað inni á miðsvæðinu hjá Liverpool rak svo síðasta naglann í líkkistu Everton-manna þegar hann skoraði fimmta mark heimamanna undir lok leiksins.

Það voru Michael Keane og Richarlison sem sáu um markaskorunina fyrir Everton sem voru mögulega að leika sinn síðasta leik með Marco Silva við stjórnvölinn. Þetta tap þýðir að Everton er með 14 stig eftir jafn marga leik og situr í fallsæti.

Liverpool er hins vegar með 43 stig á toppi deildairnnar en liðið hefur átta stiga forskot á Leicester City sem er í öðru sæti með 35 stig. Liverpool hefur nú leikið 32 deildarleiki í röð án þess að tapa sem er félagsmet.

Þá var Klopp að stýra liðinu til sigurs í deildinni í 100. skipti. Þjóðverjinn þurfti færri leiki en nokkur annar stjóri í sögu Liverpool til þess að ná þeim áfanga.