Liverpool er áfram með fullt hús stiga í ensku úrvalsdeildinni eftir 2-1 sigur á Tottenham á útivelli í hádegisleiknum í enska boltanum en Tottenham hefur nú tapað tveimur leikjum í röð.

Var þetta fyrsti leikur ensku úrvalsdeildarinnar eftir landsleikjahlé en gott gengi Liverpool heldur áfram.

Gini Wijnaldum kom gestunum yfir með skallamarki í fyrri hálfleik og bætti Roberto Firmino við marki á 54. mínútu leiksins.

Erik Lamela minnkaði muninn fyrir heimamenn á 93. mínútu en lengra komust þeir ekki. Tók Liverpool því stigin þrjú heim með sér.