Andy Lonergan skrifaði í dag undir eins árs samning við Liverpool nokkrum mánuðum eftir að hafa verið leystur undan samningi hjá Middlesbrough.
Lonergan eyddi seinni hluta síðasta tímabils á láni hjá Rochdale í annarri deild í Englandi. Lengst af hefur hann leikið í Championship-deildinni á ferlinum.
Enski markvörðurinn sem er 35 ára var fenginn til að æfa með félaginu í sumar þegar það vantaði markmenn í æfingarhóp liðsins og byrjaði hann einn leik á undirbúningstímabilinu.
Honum tókst greinilega að heilla forráðamenn Liverpool sem ákváðu að semja við Lonergan í dag eftir að Alisson Becker meiddist á dögunum og verður frá í nokkrar vikur.
Spænski markvörðurinn Adrian mun leysa Alisson af hólmi í marki Liverpool og verður Lonergan á bekknum til taks.