Liverpool er enskur meistari þetta tímabilið en titillinn langþráði er í höfn þar sem Chelsea lagði Manchester City að velli, 2-1, í leik liðanna í 31. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Stamford Bridge í kvöld.

Það var Cristian Pulisic sem skoraði fyrra mark Chelsea og Willian tryggði svo heimamönnum sigurinn með marki sínu úr vítaspyrnu. Sigur Chelsea í kvöld var líka mikilvægur fyrir Lundúnaliðið en hörð barátta er milli liðsins og nokkurra annarra liða um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Liverpool hefur haft gríðarlega yfirburði allt tímabilið, spilað skemmtilegasta boltann og nánast engin feilspor stigið frá því tímabilið var flautað á. Liðið hefur jú tapað aðeins einum leik í deildinni, sem reyndar kom gegn Watford og gert tvö jafntefli. Annars vegar við Manchester United og hins vegar á móti Everton.

Liverpool hefur skorað 70 mörk og fengið á sig aðeins 21. Algjörir yfirburðir og ef það væri ekki samkomubann í Englandi væri trúlega allt tryllt fyrir utan Anfield þessa stundina.

Hér í Reykjavík var ekkert sérstakt planað hjá stuðningsmönnum Liverpool. Flestir stuðningsmenn, sem Fréttablaðið ræddi við fyrir leikinn, ætluðu að gera eitthvað annað en að horfa á keppinautinn í titilbaráttunni. En taka síðustu mínúturnar í sófanum og jafnvel opna einn eða tvo. Svona fyrst veðrið er gott.

Chelsea vann Manchester City og tryggði Liverpool titilinn.