Bayern og Liverpool staðfestu í dag félagsskitpi Sadio Mane frá enska félaginu til þýsku meistaranna. Sóknarmaðurinn skrifaði undir þriggja ára samning við þýska stórveldið.

Mané lék í sex ár með Liverpool og kom að 158 mörkum í 269 leikjum. Hann var fyrsti leikmaðurinn sem Jurgen Klopp fékk til félagsins sumarið 2016.

Viðræður hafa staðið yfir undanfarnar vikur eftir að Mane óskaði eftir því að yfirgefa félagið þegar hann heyrði af áhuga Bayern.

Undir stjórn Klopp blómstraði Mané og varð að einum af bestu sóknarmönnum heims. Með Mané innanborðs vann Liverpool ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn í þrjátíu ár ásamt Meistaradeild Evrópu, enska bikarinn og deildarbikarinn.

Senegalinn átti eitt ár eftir af samningi sínum við Liverpool en hann hefur áður leikið með Southampton, RB Salzburg og Metz.