Liverpool vann frækinn 3-1 sigur á Bayern Munchen á útivelli á sama tíma og Barcelona vann öruggan 5-1 sigur á Lyon í lokaleikjum sextán liða úrslita Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Það verða því fjögur ensk lið í átta liða úrslitunum eftir að þau komust öll áfram. Er það í fyrsta sinn í tíu ár sem öll ensku liðin fara áfram í sextán liða úrslitunum.

Liverpool fékk sannkallaða draumabyrjun á Allianz-vellinum þegar Sadio Mane kom gestunum yfir en Joel Matip varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiks. Fyrir vikið var staðan 1-1 þegar liðin gengu inn til búningsklefanna í hálfleik.

Bayern var byrjað að færa sig framar á völlinn þegar Liverpool komst aftur yfir tuttugu mínútum fyrir leikslok. Þar var Virgil van Dijk að verki þegar hann stangaði hornspyrnu James Milner í netið.

Sadio Mane innsiglaði sigurinn og um leið sæti Liverpool í átta liða úrslitunum stuttu síðar þegar hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark Liverpool með skalla eftir góða sendingu frá Mohamed Salah.


Í Barcelona unnu heimamenn að lokum öruggan 5-1 sigur en áttu lengi vel í vandræðum gegn sprækum leikmönnum Lyon.

Börsungar fengu afar ódýra vítaspyrnu sem Lionel Messi kom heimamönnum yfir með og stuttu síðar bætti Philippe Coutinho við marki eftir góðan undirbúning Luis Suarez.

Lucas Tousart minnkaði muninn fyrir Lyon áður en Messi gerði út um leikinn með öðru marki sínu og þriðja marki Börsunga.

Gerard Pique og Ousmane Dembele áttu eftir að bæta við mörkum áður en leikurinn var flautaður af.