Leik Liverpool og Shrewsbury í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í fótbolta karla sem er á dagskrá á sunnudaginn kemur verður ekki frestað.

Liverpool átti að spila við Arsenal í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildarbikarsins í gær en þeim leik var frestað vegna Covid-smita í herbúðum Liverpool.

Reglurnar eru hins vegar strangari varðandi frestanir í ensku bikarkeppninni en í enska deildarbikarnum. Þannig er liðum skylt að mæta til leiks með leikmenn úr varaliðinu og yngri liðum séu leikmenn í aðalliðinu smitaðir.

Frestað hefur verið leik U-18 ára liðs Liverpool í bikarkeppni þess aldursflokks og því má búast við að leikmenn úr því liði verði í hópnum hjá Liverpool um helgina.

Alisson Becker, Joël Matip og Roberto Firmino misstu af leik Liverpool gegn Chelsea um síðustu helgi vegna smits en þeir gætu verið klárir í slaginn á sunnudaginn.

Peter Krawietz stýrði æfingu Liverpool í dag, í fjarveru Jürgen Klopp og Pep Lijnders, sem eru báðir í einangrun þar sem þeir eru smitaðir.

Æfingasvæði Liverpool var opnað á nýjan leik í dag eftir að hafa verið lokað um miðju viku í varúðarskyni vegna fjölda smita í herbúðum félagsins.

Mögulegt er að Klopp verði kominn úr einangrun í tæka tíð fyrir leikinn um helgina. Enskir fjölmiðla greindu frá því í vikunni að fleiri leikmenn Liverpool væri smitaðir en þeir hafa ekki verið nafngreindir.