Samkvæmt útreikningum Transfermarkt er Liverpool nú með verðmætasta leikmannahóp heims og eru leikmenn Jurgen Klopp metnir á tæpan milljarð punda.

Liverpool skaust fram úr Manchester City með kaupunum á Thiago Alcantara og Diego Jota í september og er leikmannahópurinn nú metinn á 991 milljónir punda. Markaðsvirði Thiago og Jota að mati Transfermarkt er 79 milljónir punda.

Mohamed Salah og Sadio Mane eru verðmætustu eignir félagsins á 108 milljónir punda hvor en Trent Alexander Arnold er ekki langt undan, verðmetinn á 99 milljónir punda.

Kylian Mbappe, leikmaður PSG og franska landsliðsins, er að mati Transfermarkt, verðmætasti leikmaður heims en markaðsvirði hans er áætlað 162 milljónir punda.

Markaðsvirði Messi hefur farið niður á við undanfarin ár og er nú undir hundrað milljónum punda í fyrsta sinn í átta ár.