Liverpool gekk frá leiknum í fyrri hálfleik þegar nýliðar Norwich komu í heimsókn í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar þetta tímabilið.

Liverpool braut ísinn snemma leiks þegar Grant Hanley skoraði sjálfsmark fyrir Norwich.

Mohammed Salah og Virgil van Dijk bættu við mörkum með stuttu millibili áður en Divock Origi kórónaði fyrri hálfleikinn með fjórða marki Liverpool.

Teemu Pukki minnkaði muninn í seinni hálfleik en nær komst Norwich ekki í kvöld.

Heilt yfir gott kvöld hjá Liverpool sem þarf þó að hafa áhyggjur af því að Alisson Becker, markvörður liðsins, fór meiddur af velli í fyrri hálfleik.