Liverpool er búið að ná samkomulagi við Aberdeen um kaupverð á skoska bakverðinum Calvin Ramsey. Hann verður þriðji leikmaðurinn sem Liverpool kaupir í sumar á eftir Darwin Nunez og Fabio Carvalho.

Blaðamenn á Englandi segja að með því sé þátttöku Liverpool á leikmannamarkaðnum lokið.

Hinn átján ára Ramsey lék 33 leiki á fyrsta tímabili sínu fyrir Aberdeen, þar á meðal báða leiki skoska félagsins gegn Breiðablik í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu síðasta sumar.

Hann var valinn besti ungi leikmaður Skotlands í vor en honum er ætlað að veita Trent Alexander-Arnold samkeppni.

Liverpool var á höttunum eftir franska miðjumanninum Aurélien Tchouameni en eftir að Tchouameni samdi við Real Madrid er líklegt að Jurgen Klopp bíði í eitt ár með að styrkja miðsvæði liðsins með augastað á Jude Bellingham, leikmanni Dortmund.