Liverpool er komið með ellefu stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í bili en Leicester á þó leik til góða á Bítlaborgarmenn.

Jurgen Klopp gerði sjö breytingar á byrjunarliði Liverpool í dag en það kom ekki að sök, sigurinn var aldrei í hættu.

Alex Oxlade-Chamberlain kom Liverpool yfir og stuttu fyrir lok fyrri hálfleiks bætti Naby Keita við marki eftir góðan undirbúning Mohamed Salah.

Keita launaði Salah stoðsendinguna með því að leggja upp þriðja og síðasta mark Liverpool í upphafi seinni hálfleiks.

Á sama tíma flengdi Tottenham lið Burnley á heimavelli sínum 5-0 en Jóhann Berg Guðmundsson var ekki í leikmannahóp Burnley.

Harry Kane braut ísinn með flottu skoti og Lucas Moura bætti við öðru marki skömmu síðar fyrir heimamenn.

Son Heung Min gerði út um leikinn með stórbrotnu marki um miðbik fyrri hálfleiks eftir frábæran sprett framhjá fjórum varnarmönnum Burnley.

Kane var aftur á ferðinni í seinni hálfleik og þá komst Moussa Sissoko einnig á blað í 5-0 sigri heimamanna.

Að lokum tókst Watford að verja stigið á heimavelli þegar Crystal Palace heimsótti Watford í fyrsta leik liðsins undir stjórn Nigel Pearson.

Watford er enn í neðsta sæti deildarinnar með níu stig eftir fimmtán leiki.