Liver­pool og Chelsea tryggðu sér þriðja og fjórða sætið í ensku úr­vals­deildinni, en loka­um­ferðin fór fram í dag. Fyrir um­ferðina ríkti tölu­verð spenna um það hvaða tvö lið fengju síðustu sætin í Meistara­deildina og áttu þrjú lið mögu­leika: Liver­pool, Chelsea og Leicester.

Liver­pool þurfti að vinna sinn leik gegn Crys­tal Palace til að tryggja sér annað hvort 3. eða 4. sætið og það tókst. Tvö mörk frá Sadio Mane tryggðu Liver­pool 2:0 sigur.

Á sama tíma þurfti Leicester helst að vinna sinn leik gegn Totten­ham og treysta á hag­stæð úr­slit úr leikjum Liver­pool og Chelsea. Leicester tapaði aftur á móti, 4:2, og þarf liðið að gera sér 5. sætið að góðu.

Leik­menn Leicester naga sig væntan­lega í handar­bökin því þeim hefði dugað sigur í sínum leik þar sem Chelsea tapaði gegn Aston Villa, 2:1. Chelsea endar því í 4. sæti deildarinnar með 67 stig, stigi á undan Leicester sem fékk 66 stig.

Lengi vel leit út fyrir að Liver­pool kæmist ekki í Meistara­deildina en magnaður enda­sprettur liðsins í deildinni kom liðinu þangað. Liver­pool endar í 3. sæti með 69 stig, fimm stigum á eftir Manchester United sem landaði 2. sætinu. United vann Wol­ves á úti­velli í dag, 2:1.

Eng­lands­meistarar Manchester City áttu ekki í neinum vand­ræðum með E­ver­ton og unnu sann­færandi 5:0 sigur. Gylfi Þór Sigurðs­son byrjaði fyrir E­ver­ton og brenndi af víta­spyrnu í fyrri hálf­leik.

West Ham náði 6. sætinu og þar með Evrópu­deildar­sæti með 3:0 sigri á Sout­hampton. Stór­liðin Totten­ham og Arsenal verða ekki í Evrópu­keppni næsta vetur og enda í 7. og 8. sætinu. Arsenal vann góðan 2:0 sigur á Brig­hton með tveimur mörkum frá Nicolas Pepe.