Enska fótboltafélaginu Liverpool hefur verið veitt leyfi af borgaryfirvöldum til þess að stækka Anfield um 7.000 sæti.  Eftir þær framkvæmdir getur Liverpool tekið á móti 61.000 áhorfendum á heimaleiki sína. 

Borgaryfirvöld hafa ákveðið að setja 60 milljónir punda úr borgarsjóði í framkvæmdina.Andy Hughes, framkvæmdastjóri Liverpool, segir þetta vera gríðarlegan áfanga fyrir félagið. 

Auk þess að stækka stúkuna verður byggt nýtt svæði fyrir fjölskyldur til þess að koma saman fyrir leiki Liverpool og veitingaaðstaða fyrir boðsgesti.

Á fundi borgarstjórnar Liverpool-borgar var Liverpool einnig veitt heimild til þess að halda sex stóra viðburði á næstu fimm árum, annað hvort tónleika eða annars konar atburði.  

Ekki var samstaða um þá ákvörðun en hópur fólks hefur áhyggjur af ágangi á Stanley Park í kringum viðburðina. Meirihluti studdi hins vegar tillöguna.