Sir Roger Hunt, fyrrverandi framherji enska knattspyrnufélagsins Liverpool lést í morgun 83 ára að aldri.

Hunt lék með Liverpool í 11 ár frá 1958 til 1969 en á þeim tíma skoraði hann 286 mörk fyrir liðið. Hann var markahæsti leikmaður í sögu félagsins allt þar til Ian Rush tók það met af honum.

Þrátt fyrir að Rush hafi skotið Hunt ref fyrir rass á listanum yfir mörk í öllum keppnum er Hunt enn markahæsti leikmaður Liverpool í efstu deild með sín 244 mörk í deildarkeppni.

Undir stjórn Bill Shankly varð Hunt tvisvar sinnum enskur meistari og einu sinni enskur bikarmeistari.

Í ágúst árið 1964 skoraði Hunt fyrsta markið sem birtist í þætti BBC, Match of the day. Auk marka sinna og titla sem Hunt vann í búningi Liverpool varð hann heimsmeistari með enska landsliðinu árið 1966 en hann skoraði þrjú mörk í sex leikjum í þeirri keppni sem fram fór á Englandi.