Liverpool vann afar sannfærandi 4-0 sigur á Brighton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar og tryggði sér með því þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta ári en á sama tíma féll Swansea niður í Championship.

Var enn hætta á að Liverpool myndi glutra frá sér sætinu en til þess þurfti liðið að tapa gegn Brighton á sama tíma og Chelsea myndi sækja sigur til Newcastle.

Mohamed Salah kom Liverpool yfir með 32. marki sínu í vetur og bætti Dejan Lovren við öðru marki í fyrri hálfleik á sama tíma og Newcastle komst yfir gegn Chelsea. Dominic Solanke og Andrew Roberson bættu við mörkum í seinni fyrir Liverpool og innsigluðu sætið en á sama tíma steinlá Chelsea 0-3 á St. James Park.

Á hinum enda töflunnar þurfti Swansea á kraftaverki að halda til að bjarga sér frá falli en þeir þurftu að vinna Stoke á sama tíma og Southampton tapaði gegn Manchester City og að vinna upp tíu marka mismun í leiðinni.

Andy King kom Swansea yfir strax í byrjun en Stoke svaraði með tveimur mörkum og felldi með því endanlega Svanina sem kveðja ensku úrvalsdeildina eftir sjö ár í efstu deild.

Á Old Trafford lék Michael Carrick kveðjuleik sinn fyrir Manchester United en hann hefur tilkynnt að hann muni hætta knattspyrnuiðkun eftir tímabilið. Marcus Rashford skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri á Watford.

Þá kvaddi Arsenal stjóra sinn, Arsene Wenger með sigri gegn Huddersfield á útivelli en þetta voru fyrstu stig Arsenal á útivelli eftir áramót. Pierre-Emerick Aubameyang skoraði eina mark leiksins en það var tíunda mark hans í vetur.

Á sama tíma var markaveisla á Wembley þar sem Tottenham vann 5-4 sigur á Leicester en Harry Kane skoraði í tvígang fyrir Tottenham sem þýðir að hann endar með 30 mörk á tímabilinu.

Úrslit dagsins:
Burnley 1-2 Bournemouth
Crystal Palace 2-0 West Brom
Huddersfield 0-1 Arsenal
Liverpool 4-0 Brighton
Manchester United 1-0 Watford
Newcastle 3-0 Chelsea
Southampton 0-1 Manchester City
Swansea 1-2 Stoke
Tottenham 5-4 Leicester
West Ham 3-1 Everton