Liverpool náði toppsætinu í ensku úrvalsdeildinni á ný með naumum 2-1 sigri á Fulham á Craven Cottage í dag þar sem varamaðurinn James Milner skoraði sigurmark gestanna.

Liverpool er með tveggja stiga forskot en Manchester City á leik til góða á Liverpool.

Sadio Mané kom Liverpool yfir í fyrri hálfleik með ellefta marki sínu í síðustu ellefu leikjum. Mane og Roberto Firmino sundurspiluðu vörn Fulham snyrtilega og Mané skoraði með skoti af stuttu færi.

Liverpool var sterkari aðilinn stærstan hluta leiksins en Fulham jafnaði metin um miðbik seinni hálfleiks og þar var að verki fyrrum Liverpool-maðurinn Ryan Babel.

Hann nýtti sér mistök landa síns, Virgil van Dijk og komst inn í sendingu til Alisson og átti auðvelt með að afgreiða boltann í autt netið eftir að léleg sending frá Milner kom van Dijk í vandræði.

Stuttu síðar var vítaspyrna dæmd á Sergio Rico, markvörð Fulham fyrir brot á Sadio Mane og á vítapunktinn steig varamaðurinn James Milner. Hann afgreiddi vítið og reyndist það sigurmark leiksins.