Liverpool mun eyða sex dögum í æfingarbúðum á Spáni fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þrátt fyrir að slíkar æfingarferðir hafi ekki skilað tilætluðum árangri á tímabilinu.

Tilkynnt var í dag að Liverpool færi með 26 manna hóp til Marbella og vekur athygli að Naby Keita og Roberto Firmino sem hafa verið að glíma við meiðsli ferðast með liðinu.

Þetta verður í þriðja sinn sem Liverpool fer í æfingarferð í sólina á tímabilinu og annað árið í röð sem Liverpool ferðast til Marbella fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Þessar ferðir hafa ekki reynst liðinu vel til þessa þar sem Liverpool tapaði úrslitaleiknum í fyrra og átti erfitt uppdráttar í fyrstu leikjunum eftir æfingarferðirnar á þessu tímabili.

Leikmenn Liverpool munu eyða næstu dögum á Spáni áður en þeir koma aftur til Englands og hefja lokaundirbúninginn fyrir úrslitaleikinn sem fer fram í Madríd í byrjun júní.