LIV-mótaröðin í golfi er búin að sækja um að mótaröðin verði með í útreikningum þegar kemur að stigagjöf á heimslistanum í golfi.

Að sögn Greg Norman, framkvæmdarstjóra LIV-mótaraðarinnar, er mótaröðin búin að vinna að umsókninni í samstarfi við þá sem gefa listann út.

Undanfarnar vikur hafa fjölmargir heimsfrægir kylfingar þegið boð frá LIV-mótaröðinni að skipta um mótaröð sem hefur skapað mikla úlfúð innan golfíþróttarinnar.

Dustin Johnson, einn besti kylfingur heims undanfarinn áratug, fékk 150 milljónir dala fyrir skiptin en til samanburðar hefur hann unnið sér inn tæplega 75 milljónir dala á PGA-mótaröðinni.

Samkvæmt leikmannasamning PGA-mótaraðarinnar þurfa leikmenn að sækja um undanþágu vegna móta á annarri mótaröð og er PGA búið að tilkynna að undanþága verði ekki veitt vegna móta á LIV-mótaröðinni

Sautján kylfingar af PGA-mótaröðinni tóku þátt í fyrsta móti LIV á dögunum og eru nú komnir í bann frá PGA-mótaröðinni.

Meðal þeirra sem sitja í stjórn heimslistans í golfi er formaður PGA-mótaraðarinnar sem hefur farið hörðum orðum um LIV-mótaröðina.