Ylfa Rúnarsdóttir, sem er 26 ára gömul, segir hægt að líkja snjóbrettabransanum við tónlistarbransann að því leyti að þetta sé töluvert hark þar sem megi ekki gefast upp þrátt fyrir að fá töluverðan fjölda neitana við verkefnum á ferlinum.

„Áhugi minn á snjóbretti kviknaði þegar ég og bróðir minn fengum hjólabretti í sumardagsgjöf þegar við vorum 12 eða 13 ára. Við urðum strax alveg heltekin af brettamenningunni og fljótlega fór ég að sækja í það að fara á snjóbretti.

Ég hafði prófað eiginlega allar íþróttir þegar ég var barn og unglingur, fótbolta, handbolta og frjálsar íþróttir. Þegar ég byrjaði að stunda snjóbrettið fann ég það hins vegar strax að það var íþrótt og lífsstíll sem heillað mig mjög mikið og ég hef ekki hætt síðan,“ segir Ylfa sem fór til Svíþjóðar í framhaldsskóla á afreksbraut með áherslu á vetraríþróttir.

„Eftir að ég kláraði skólann hellti ég mér í það að búa til myndbönd og reyna að koma mér á framfæri. Ég er mest í því að taka upp á svæðum sem eru ekki skipulögð snjóbrettasvæði eða fjöll þar sem eru ekki troðnir slóðar og maður hefur frjálsræði til þess að búa til sínar eigin brautir. Mér finnst það skemmtilegast,“ segir hún.

Þjálfar áhugasamar stelpur

„Það var svo mjög ánægjulegt og mikill áfangi þegar Burton vildi semja við mig. Það sem heillaði mig mest við þeirra tilboð var hversu mikla áherslu fyrirtækið ætlar að setja á að koma snjóbrettakonum fram á sjónarsviðið.

Ég finn það alveg núna að svona eftir á að hyggja þá var mjög erfitt að koma sér áfram sem kona í karllægum snjóbrettaheimi á sínum tíma.

Ég lét það ekki stoppa mig og pældi ekki í því á leiðinni þar sem ég var svo ákveðin í að fá að stunda það sem ég elskaði mest.

Að vera á samningi við Burton veitir mér fjárhagslegt öryggi og þeir aðstoða mig við að finna spennandi verkefni. Ég er hins vegar enn sjálfstæð að því leyti að ég get alveg ennþá skapað mín eigin verkefni og unnið með þeim aðilum sem ég vil vinna með.

Það er hins vegar mikilvægt að þær stelpur sem eru að byrja núna eigi sér fyrirmyndir og þess vegna hef ég verið dugleg að taka að mér að kenna í æfingabúðunum fyrir ungar og efnilegar snjóbrettastelpur hér í Svíþjóð,“ segir Ylfa sem er búsett í Svíþjóð ásamt kærasta sínum, Johan Nordhag, sem er einnig atvinnumaður á snjóbretti.

„Að vera á samningi við Burton veitir mér fjárhagslegt öryggi og þeir aðstoða mig við að finna spennandi verkefni. Ég er hins vegar enn sjálfstæð að því leyti að ég get alveg ennþá skapað mín eigin verkefni og unnið með þeim aðilum sem ég vil vinna með.

Mér finnst langskemmtilegast þegar ég næ að setja saman teymi af einstaklingum sem ég kann vel við og treysti og vinna með þeim. Það er draumurinn að geta gert það áfram,“ segir þessa metnaðarfulla snjóbrettakona.

Spennandi hlutir handan við hornið

„Fram undan hjá mér er smá hvíld eftir mikla törn. Þar á eftir er ég að fara til Kiruna og Riksgränsen að taka upp vídeó.

Þá er ég líka að fara í törn þar sem ég fer í myndatökur fyrir þau tímarit sem gefin verða út í vor. COVID er að taka frá mér drauminn um verkefni í Bandaríkjunum eins er og það er erfiðara að skipuleggja ferðalög um Evrópu á þessum óvissutímum vegna veirunnar.

Það eru hins vegar spennandi tímar handan við hornið og ég get ekki beðið eftir því að geta ferðast án hindrana og halda áfram að tjá mig í gegnum snjóbrettið,“ segir Árbæingurinn um framhaldið.

Mynd/Myriam Feller