Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, er búið að tilkynna hvaða þrír leikmenn voru efstir í kjörinu um leikmann ársins í kvennaknattspyrnu. 

Er þar að finna liðsfélaga Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg, danska framherjann Pernille Harder.

Vakti Harder athygli á því á Twitter-síðu sinni í dag að hún kemst ekki á verðlaunaafhendinguna þann 30. ágúst næstkomandi.

Eru verðlaunin afhent þegar dregið er í riðla í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki en þá er hún, líkt og aðrar konur í verkefnum með landsliði sínu.

Hin danska Pernille Harder skoraði 17 mörk á fyrsta heila tímabili sínu í Þýskalandi og tók um leið gullskóinn er Wolfsburg varði meistaratitil sinn ásamt því að skora átta mörk í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Norski framherjinn Ada Hegerberg og franski miðjumaðurinn Amandine Henry frá Lyon eru einnig meðal þriggja efstu.

Var um leið tilkynnt hvaða tíu leikmenn fengu flest stig og eru leikmenn franska félagsins Lyon, ríkjandi Evrópumeistara áberandi. 

Eru alls sjö leikmenn frá franska félaginu meðal tíu efstu, þar af tvær meðal þriggja efstu.