Enska knattspyrnugoðsögnin Gary Lineker, ver hegðun mótmælenda sem vildu vekja athygli á loftslagsbreytingum með því að hlaupa inn á Silverstone kappakstursbrautina á meðan að breski Formúlu 1 kappaksturinn fór fram í gær.

Lineker segir að mannkyninu standi mun meiri ógn af loftslagsbreytingum heldur en þeim sem vilji raska kappakstri. ,,Ef það er nú þegar ekki of seint mun sagan vera í hag þessa fólks," sagði Lineker í færslu á Twitter.

Martin Brundle, fyrrum Formúlu 1 ökumaður og núverandi sérfræðingur Sky Sports er allt annað en sáttur með þessi skilaboð Linekers og svaraði færslu hans á Twitter.

,,Gary, vinsamlegast ekki hvetja til þessarar kærulausu hegðunar. Þeir (mótmælendurnir) hefðu endað í 100 bitum og áhorfendur, öryggisverðir sem og ökumenn áttu í hættu á að meiðast eða drepast. Við höfum nú þegar sloppið einu sinni," skrifar Brundle í svari sínu til Lineker og bætir því við að hann styðji mál- og tjáningarfrelsi 100% en af ábyrgð.

Lineker dregur hins vegar ekkert úr þessari skoðun sinni. ,,Það er mun meiri hætta á að fólk deyji af völdum loftslagsbreytinga frekar en að reyna tefja kappakstur.

Hvað gerðist?

Lögreglan í Northamptonskíri í Bretlandi hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að sjö mótmælendur hafi verið handteknir í tengslum við að hafa hlaupið inn á Silverstone kappakstursbrautina við upphafi Formúlu 1 kappakstursins í gær.

Mótmælendurnir vildu vekja athygli á stöðu jarðarinnar í loftslagsmálum en segja má að það hafi verið lán í óláni að rauðu flaggi hafi verið veifað og keppnin stöðvuð vegna áreksturs við upphaf fyrsta hringjar.

Ef keppnin hefði ekki verið stöðvuð hefðu mótmælendur sig og ökumenn í mjög mikla hættu. Þó ber að hafa það í huga að það fylgir því alltaf hætta að hlaupa inn á kappakstursbraut þar sem bílum er ekið á yfir 300 kílómetra hraða á klukkustund.