Gary Lineker mun snúa aftur til starfa hjá BBC eftir að hafa verið settur til hliðar hjá fjölmiðlinum fyrir að hafa gagnrýnt stefnu bresku ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttafólks opinberlega. Lineker, sem goðsögn í sögu enskrar knattspyrnu, líkti stefnu ríkisstjórarinnnar við eitthvað sem tíðkaðist í Þýskalandi nasismans.

Það er Sky Sports sem greinir frá tíðindunum en talið er að BBC muni biðja Lineker afsökunar á að hafa sett hann til hliðar.

Sjálfur hefur Lineker sagst ekki ætla að biðjast afsökunar á sínum orðum, sem hann setti fram í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter, hann stendur við þessa skoðun sína.

Nú er beðið eftir yfirlýsingu frá BBC.

Uppfært kl 10:14

Gary Lineker hefur sent frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem hann segist himinlifandi með að hann og BBC hafi tekist að vinna sig í átt að niðurstöðu í málinu.

„Ég vil þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn, sérstaklega kollegum mínum á BBC Sport sem sýndu magnaða samstöðu. Fótbolti er liðsíþrótt en stuðningur þeirra er ómetanlegur.“

Hann hlakki til að snúa aftur á skjáinn í Match of the Day á laugardaginn.

„Sama hversu erfiðir síðustu dagar hafa verið, þá eru þeir ekkert í líkingu við þær hörmungar sem fólk, sem þarf að flýja heimili sín vegna ofsókna, stríðs og leita skjóls í öðru landi, þarf að upplifa.“