Enska knattspyrnugoðsögnin Gary Lineker kýs að líta á léttu hliðarnar nú þegar að dómari í meiðyrðamáli Rebekuh Vardy gegn Coleen Rooney hefur kveðið upp úrskurð sinn Rooney í vil en hún hafði sakað Vardy um að leka upplýsingum um einkalíf sitt í The Sun. Báðar eru þær giftar þekktum einstaklingum úr enska knattspyrnuheiminum, Rebekah með Jamie Vardy og Coleen með Wayne Rooney.

Rebekah kaus að fara með málið fyrir dómstóla og að mati dómara í málinu verður það að teljast líklegt að Caroline Watt, umboðsmaður Rebekuh Vardy hafi tekið við upplýsingum um einkalíf Rooney fjölskyldunnar og komið þeim áfram/selt þær til The Sun.

,,Vardy skorar sjaldséð sjálfsmark," skrifar Lineker í færslu á Twitter en hann starfar nú sem knattspyrnusérfræðingur og vísar þarna í stöðu Jamie Vardy, eiginmanns Rebekuh með Leicester City þar sem hann er framherji.

Deilur kvennanna tveggja hafa staðið yfir í langan tíma en Rebekah á­kvað að fara með málið fyrir dóm­stóla eftir að Co­leen á­sakaði hana um að leka upp­lýsingum um einka­líf hennar til breska slúður­miðilsins The Sun. Málið hefur teygt anga sína inn í um­hverfi enska boltans en Rebekah er eigin­kona Jamie Var­dy, fram­herja enska úr­vals­deildar­fé­lagsins Leicester City.

Co­leen greindi opin­ber­lega frá á­sökunum sínum í Twitter­færslu í októ­ber árið 2019 þar sem hún sagðist hafa haft grun um að Rebekah hafi verið að leka upp­lýsingum um einka­líf sitt til The Sun.

Roon­ey fylgdist náið með Insta­gram reikningi sínum og setti inn efni sem að­eins vinir og vanda­menn fengu að­gang að, þar með talið Rebekah Var­dy. Hún segist smám saman hafa fækkað í þeim hópi sem sá efnið sem hún setti inn þar til að Rebekah Var­dy stóð ein eftir.