Gary Lineker skrifaði undir nýjan fimm ára samning við BBC og mun halda áfram sem stjórnandi fótboltaþáttarins Match of the day. Hann stýrði þættinum fyrst árið 1999.

Lineker tekur á sig 23 prósenta launalækkun og samkvæmt fréttum ytra hefur hann samþykkt að passa sig betur á samfélagsmiðlum, en Lineker er einn allra skemmtilegasti Twitter-notandinn þegar kemur að fótbolta.

Nýr framkvæmdarstjóri BBC, Tim Davie, tilkynnti um samninginn í gær og minnti á að samfélagsmiðlanotkun starfsmanna BBC væri undir sífelldri skoðun.

Lineker var með 1,75 milljónir punda í árslaun og er því með 1,35 milljónir í árslaun með nýja samningnum. Það gerir um 236 milljónir króna samkvæmt gengi gærdagsins. Morgunþáttastjórnandinn Zoe Ball er því launahæsti starfsmaður BBC, en hún tók við stjórnartaumunum morgunþáttarins í fyrra. Af tíu launahæstu starfsmönnum BBC eru fjórar konur.

Lineker tísti um samninginn og sagðist vorkenna þeim sem þola ekki að sjá hann á skjánum enda samningurinn langur.