Ajax var nokkrum andartökum frá því að tryggja sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla þegar liðið fékk Tottenham Hotspur í heimsókn á Johan Cruyff-leikvanginn í Amsterdam í miðri viku. Þrenna Lucas Moura kom í veg fyrir að ungt og efnilegt lið Ajax fengi möguleika á að sigra í fimmta skipti í sögu félagsins.

Ajax var með svipað lið í höndunum um miðjan tíunda áratug síðustu aldar en síðasti Meistaradeildartitill hollenska liðsins kom vorið 1995 þegar sigurmark Patricks Kluivert tryggði liðinu sigur í úrslitaleiknum í keppninni gegn AC Milan það árið. Ajax fór svo í úrslitaleik keppninnar árið eftir þar sem tap gegn Juventus eftir vítaspyrnukeppni varð staðreynd.

Eftir þennan góða árangur voru leikmenn Ajax eftirsóttir og liðið var tætt í sundur af risum evrópska fótboltans og öðrum liðum víðs vegar um Evrópu. Michael Reiziger og Edgar Davids fóru til AC Milan, Clarence Seedorf söðlaði um til Sampdoria, Finidi George gekk í raðir Real Betis og Nwanko Kanu fór í herbúðir Inter Milan. Þá lagði Frank Rijkard skóna á hilluna árið 1995. Árið 1997 fór svo Marc Overmars til Arsenal og Winston Bogarde og Patrick Kluivert til AC Milan.

Louis van Gaal var ráðinn knattspyrnustjóri Barcelona árið 1997 eftir að hafa stýrt Ajax á gullaldarskeiði liðsins. Seinna, eða árið 1999, fór svo Edwin van der Saar til Juventus, tvíburabræðurnir Frank og Ronald de Boer og Jari Litmanen gengu til liðs við Barcelona.

Nú er strax byrjað að kvarnast úr Ajax-liðinu sem kom öllum á óvart. Frankie de Jong, sem var prímúsmótorinn inni á miðsvæðinu hjá liðinu, hefur samið við Barcelona og Matthijs de Ligt, fyrirliði liðsins sem leikur í hjarta varnarinnar hjá Ajax og er orðinn fastamaður í hollenska landsliðinu, er orðaður við flest stærstu lið Evrópu.

Ajax með unga og efnilega leikmenn á færibandi

Marokkóski vængmaðurinn Hakim Ziyech, sem skoraði seinna mark Ajax í tapinu gegn Tottenham Hotspur, hefur áhuga á að öðlast nýja áskorun í sterkari deildarkeppni en í Hollandi. Landi hans, Noussair Mazraoui, sem er mjög spennandi hægri bakvörður gæti verið á leið til Spánar.

Donny van de Beek sem skoraði sigurmark Ajax á móti Tottenham Hotspur í fyrri leiknum og fjögur mark alls í keppninni hefur einnig vakið eftirtekt liða sem gætu freistað hans. David Neres sem hefur brotið sér leið inn í brasilíska landsliðið í kjölfar góðrar frammistöðu sinnar í framlínu Ajax hefur vakið áhuga ensku toppliðanna. Þá hefur Kasper Dolberg verið nefndur til sögunnar á innkaupalista Real Madrid fyrir sumarið.

Við höfum önnur nýleg dæmi um lið sem hafa farið langt eða alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar og í kjölfarið verið rifin í sig af evrópsku stórliðunum. Það er Porto sem vann Meistaradeildina vorið 2004 og missti svo stjóra sinn José Mourinho og sínar stærstu stjörnur. Svo er það Monaco sem fór í undanúrslit fyrir tveimur árum og í kjölfarið fóru Kylian Mbappe, Benjamin Mendy, Bernardo Silva og Tiemoue Bakayoko frá liðinu.

Unglingastarf Ajax er mjög faglegt og margrómað en það byggist upp á þeim gildum sem Rinus Michels er hugmyndasmiðurinn að og Johan Cruyff hélt svo á lofti. Fjölmargir leikmenn hafa komið í gegnum akademíu félagsins og félagið, sem er vel rekið og ríkt af vel þenkjandi mönnum um fótbolta í stjórnendateymi sínu, þarf ekki að kvíða því að framtíðin sé svört þó lykilleikmenn hverfi af braut í sumar.

Það mun hins vegar taka tíma að byggja upp jafn öflugt lið og félagið hefur á að skipa þessa stundina ef þorri ofangreindra leikmanna yfirgefur leikmannahópinn. Það verður verðugt verkefni fyrir Erik ten Hag, þjálfara liðsins, en dæmin sanna að Ajax er reglulega með lið sem getur gert sig gildandi í Evrópuboltanum.