Ísland og Ítalía mætast í stórleik dagsins á Evrópumótinu í knattspyrnu. Sigur yrði gífurlega mikilvæg niðurstaða fyrir bæði lið og yrði stórt skref í átt að 8-liða úrslitum keppninnar.

Ítalía skorar í nær öllum sínum leikjum. Íslenska liðið freistar þess að verða það fyrsta til að halda hreinu gegn Ítölum síðan í desember 2020. Þá gerði liðið markalaust jafntefli við Danmörku. Eftir leikinn við Dani hefur ítalska liðið skorað eitt mark eða fleiri í átján leikjum í röð í öllum keppnum.

Ef þessi tölfræði er tekin inn í myndina er það því ekki ólíklegt að íslenska liðið þurfi að gera betur en í síðasta leik, þar sem það skoraði eitt mark gegn Belgíu.

Ísland og Ítalía mættust í tveimur vináttulandsleikjum í Flórens með stuttu millibili í apríl í fyrra. Þá skoruðu Ítalir eitt mark í hvorum leiknum. Fyrri leiknum lauk með 1-0 sigri þeirra og þeim síðari lauk með 1-1 jafntefli þremur dögum síðar.

Íslenska liðið getur þó svo sannarlega skorað mörk, líkt og það ítalska. Til að mynda hefur liðið skorað meira en þrjú mörk að meðaltali í leik í undankeppni HM sem nú stendur yfir.

Stjarna Ítala er liðsfélagi Söru

Cristiana Girelli er stjörnuleikmaður ítalska landsliðsins. Sóknarmaðurinn er án efa leikmaður sem íslenska liðið þarf að varast í leik dagsins. Girelli leikur með Juventus í heimalandinu. Hún verður því liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttur á næstu leiktíð.

Cristiana Girelli
Fréttablaðið/GettyImages

Liðið varð ítalskur meistari á síðustu leiktíð og komst í 8 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.Hinni 32 ára gömlu Girelli tókst ekki að setja mark sitt á fyrsta leik Ítalíu í riðlinum gegn Frökkum. Hins vegar fékk hún alls ekki mikla þjónustu í 5-1 tapi.

Í undankeppni EM raðaði hún hins vegar inn mörkunum, skoraði níu mörk, flest allra í ítalska liðinu.Girelli er reynslumikill leikmaður. Hún á að baki 78 leiki fyrir A-landslið Ítalíu. Í þeim hefur hún skorað 46 mörk. Girelli hefur farið með Ítölum á fjögur stórmót, fyrir utan mótið sem nú stendur yfir. Það eru heimsmeistaramótin 2015 og 2019 og Evrópumótin 2013 og 2017.