Ári eftir andlát argentínska knattspyrnumannsins Emiliano Sala situr fjölskylda hans í sárum og telur skorta svör um tildrög flugslyssins sem leiddu til þess að hann lést. Sala sem var 28 ára gamall þegar hann lést var um borð í flugvél sem átti að ferja hann frá Nantes í Frakklandi til Cardiff City í Wales. Honum var ætlað að aðstoða Cardiff City við að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni en komst ekki á leiðaranda.

Cardiff City hafði fylgst með framgöngu Sala í þó nokkurn tíma áður en kaupin gengu í gegn en hann hafði skorað 42 mörk í 120 leikjum fyrir Nantes. Sala var dýrast leikmaður í sögu Cardiff City en kaupverðið var um það bil 15 milljónir punda. Lík David Ibbotson flugmannsins sem fékk það hlutverk að ferja Sala yfir hafið hefur enn ekki fundist. Lögreglan og samgönguyfirvöld í Bretlandi rannsaka enn flugslysið og ekki hefur verið gefin út skýrsla um slysið. Talið er að niðurstöður skýrslunnar verði birtar í mars síðar á þessu ári.

Þá eru Nantes og Cardiff City enn í slag fyrir dómstólum um það hvort félagið eigi að bera þann fjárhagslega skaða sem varð af því að Sala gat ekki haldið áfram knattspyrnuiðkun sinni. Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, úrskurðaði á síðasta ári að Cardiff City bæri að greiða Nantes fimm milljónir punda sem átti að vera fyrsta innborgun á greiðslu fyrir Argentínumannninn en velska félagið hefur áfrýjað þeim úrskurði til alþjóða íþróttadómstólsins (CAS).

Flak flugvélarinnar fannst nokkrum dögum eftir flugslysið en krufning á líki Sala leiddi í ljós að dánarorsök hans hafi verið kolmónoxið eitrun. Rannsókn hefur staðið yfir á því hvað olli því að of mikið magn af kolmónoxiði komst inn í flugvélina en gagnrýnt hefur verið að ekki hafi verið farið settur nægur þungi í leitina að flugvélinnni og við það hafi tapast sönnunargögn um orsök slyssins.

Flugvélin hafði ekki leyfi til þess að fljúga þessa flugleið

Sala hafnaði boði Cardiff City um að ferðast til Wales með almennu flugi og fór þess á stað á leit við Willie McKay, umboðsmann, um að útvega einkaflugvél til þess að koma honum á milli staða. Samgönguyfirvöld segja að flugvélin sem notað var í ferðina örlagaríku hafi ekki haft leyfi til þess að fara þá flugleið sem fara þar til þess að komast fá Nantes til Cardiff. Sala var í samskiptum við Jack, son Willie McKay, um flugið en Jack lék á þeim tíma með Cardiff City.

Þegar Sala var kominn um borð í flugvélina sendi hann félögum sínum talskilaboð í gegnum síma þar sem hann lýsti yfir áhyggjum sínum um fararkostinn. Þar heyrðist hann segja. „Mér líður eins og flugvélin sé að hrynja í sundur." Skömmu síðar fékk Sala banvænan skammt af kormónoxiði. Samgönguyfirvöld hafa rannsakað hvers vegna það gerðist. Ken Choo, stjórnarformaður Cardiff City, hefur kallað eftir hertari reglum um flugsamgöngur sem koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst aftur.

Síðasta sumar var 64 ára gamall maður handtekinn í Yorkshire í tengslum við málið en hann er grunaður um að eiga þátt í dauða Sala með háttsemi sinni. Engin ákæra hefur verið gefin út í máli hans.

Berenice Schkair, fyrrverandi kærasta Sala, býr í Argentínu en í samtali við Skysports lýsti hún honum sem stríðsmanni inni á knattspyrnuvellinum. „Hann var aftur á móti góður maður og traustur félagi. Auðmjúkur og blíður karakter sem vildi sínum nánustu ávallt vel. Sala á það skilið að vera minnst fyrir þau góðu verk sem hann framkvæmdi. Fjölskylda hans og vinir í Argentínu sakna hans sárt. Það var ólýsanlega sárt að frétta af andláti hans og í raun óraunverulegt. Hann er engillinn minn sem mun aldrei fara úr huga mínum," segir Schkair um fyrrverandi kærasta sinn.