Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sendi forráðamönnum félaganna sem leika í efstu deild karla og kvenna í knattspyrnu tölvupóst um nýliðna helgi þar sem frak kemur að Almannavarnir og sóttvarnarlæknir hafi ákveðið að bjóða upp á skimun fyrir leikmenn og forráðamenn liðanna í deildinni.

Skimunin verður framkvæmd af Íslenskri erfðagrein­ingu í sam­starfi við Land­spít­al­ann. Leik­menn og starfs­fólk liðanna er boðið í skimun­ina ásamt 2. flokki sömu liða, sem og starfs­fólki íþrótta­mann­virkja liðanna.

„Ástæðan fyr­ir því að þessi hóp­ur er val­inn er ald­urs­dreif­ing og að dæm­in sanna að þetta er ald­ur sem á sam­skipti við marga. Niður­stöður á þess­ari skimun verða því mjög gagn­leg­ar," seg­ir í tilkynningu sem Víðir sendi til félaganna.

Smit hafa komið upp hjá leik­mönn­um í þremur félögum í efstu deildunum en um er að ræða kvennalið Breiðabliks og Fylkis sem og karlalið Stjörnunnar. Þessi smit hafa orðið til þess að nokkur fjöldi leikmanna í deildunum er í sóttkví og leikjum kvennaliða Blika og KR sem og karlaliðs Stjörnunnar hefur verið frestað. Þá verður mögulega tilkynnt um það í dag að það sama eigi við um næstu leiki kvennaliðs Fylkis.