Mattia Binotto, liðsstjóri Formúlu 1 liðs Ferrari hefur þurft að grípa til mikilla varna fyrir liðið og ákvarðanatöku þess en undanfarnar Formúlu 1 keppnir hefur álitið á raunum liðsins verið það að liðið sé að gera alltof mörg mistök sem séu að kosta Ferrari séns á heimsmeistaratitli á tímabilinu.

Nú síðast hefur ákvörðun liðsins um að kalla ökuþór sinn Charles Leclerc inn á þjónustusvæðið undir lok keppninnar í Belgíu um nýliðna helgi verið dregin í efa. Leclerc var á þeim tímapunkti í 5. sæti en liðið kallaði hann inn til þess að setja á hann ferskan dekkjaumgang og bundu vonir við að Leclerc næði þannig að setja hraðasta hring keppninnar og vinna sér inn auka stig.

Hins vegar fór Leclerc of hratt yfir línuna sem markar upphaf þjónustusvæðisins og fékk í kjölfarið fimm sekúndna refsingu sem felldi hann niður í 6. sæti. Binotto segir hins vegar að ákvörðun um að kalla Leclerc inn á þjónustusvæðið beri með sér merki hugrekkis.

Hann segir almenningsáltið á raunum Ferrari á tímabilinu einnig ekki gefa rétta mynd. „Augljóslega er alltaf þörf á því að við bætum okkur og við erum sífellt að læra,“ sagði Binotto. „En ef ég lít til baka á tímabilið þá tel ég að stundum séum við ekki að gera mistök sem hafa verið álitin sem mistök af hálfu utanaðkomandi aðila."

„Ég held að ákvörðunin um að taka þjónustuhlé hafi verið rétt ákvörðun. Maður þarf að vera hugrakkur í Formúlu 1. Þarna var tækifæri fyrir okkur að ná hraðasta hringnum og munurinn frá okkur í Fernando Alonso í 6. sæti sýndi okkur að þetta var möguleiki

Við vissum að þetta yrði tæpt, við myndum missa stöðu okkar, en vorum viss um að við hefðum getað náð honum aftur – við vorum með ferskari dekkin."

Filma af hjálmi Max Ver­stappen, ríkjandi heims­meistara og öku­manni Red Bull Ra­cing í For­múlu 1 olli því að upp komu vanda­mál í Ferrari bíl Charles Leclerc. Vandamál sem höfðu áhrif á umrætt þjónustuhlé.

Mattia Binotto, liðs­stjóri Ferrari segir að of­hitunar­vanda­málið í bíl Leclerc hafi ollið því að einn af skynjurunum í bíl hans hafi hætt að virka og þar með hafi hraða­nemi í bíl hans ekki virkað sem skildi er hann fór aftur inn á þjónustu­svæði seinna í keppninni.