Leiknum var slegið á frest sökum kórónuveirusmita sem hafa komið upp í tengslum við Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi. Handbolti.is greindi frá.

Liðsmenn Hauka voru mættir á völlinn er leiknum var frestað. Samkvæmt frétt handbolti.is er þetta ekki í fyrsta skipti sem fresta hefur þurft leik í deildinni vegna kórónuveirusmita, ekki er langt um liðið síðan að tveimur leikjum Fjölnis var frestað.

Í frétt hjá Fréttablaðinu í gær kom fram að fjarkennsla væri út vikuna í Fjölbrautaskóla Suðurlands vegna smita sem greinst hafa meðal starfsmanna skólans.

Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari skólans, greindi frá því í gær að alls hafi sex smit greinst innan skólans. Hún sagðist einnig eiga von á því að fleiri smit myndu greinast á næstu dögum.