Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, tjáði sig um stöðu mála á Jóhanni Bergi Guðmundssyni en hann var borinn af velli í leik liðsins gegn Sheffield United í enska deildarbikarnum eftir harkalega tæklingu.

Dyche sagði að meiðslin væru ekki eins alvarleg og litið hafi út í fyrstu en myndataka hafi leitt í ljós að liðbönd í hné Jóhanns Berg séu sködduð.

Þau meiðsli muni halda Jóhanni Berg utan vallar næstu vikurnar og mun hann þar af leiðandi að öllum líkindum missa af leik Íslands og Rúmeníu í undanúrslitum í umspili um laust sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer á Laugardalsvellinum 8. október næstkomandi.

Jóhann Berg glímdi við kálfameiðsli lungann úr síðustu leiktíð og þetta keppnistímabil fer ekki vel af stað hvað meiðsli varðar.