Kylfingurinn var einn á ferð þegar hann velti bíl sínum í Los Angeles í gærkvöld.

Viðbragðsaðilar sem komu að slysstaðnum þurftu að klippa hurðina af bíl Tiger til að koma kylfingnum út.

Farið var með hann á spítala undir eins þar sem Tiger gekkst strax undir aðgerð vegna meiðslanna.

Tiger fór í aðgerð vegna meiðsla á hægri sköflungi og var meðal annars skrúfa sett í sköflunginn til að minnka skaðann.

Að sögn talsmanna Woods var Tiger nokkuð hress eftir aðgerðina og gat rætt við aðstandendur sína.

Að sögn lögreglumanns á svæðinu var Tiger ekki grunaður um akstur undir áhrifum og að bílslys væru algeng á þessum stað.

Þá bætti hann við að loftpúðarnir gætu hafa bjargað lífi Tiger.

Tiger er einn besti kylfingur allra tíma en hann jafnaði met Sam Snead yfir flesta sigra á PGA-mótaröðinni haustið 2019 þegar Tiger vann 82. mótt sitt á Zozo Championship.

Aðeins Jack Nicklaus (18) hefur unnið fleiri risatitla en Tiger sem hefur unnið fimmtán risatitla.

Eftir áralanga baráttu við meiðsli sneri Tiger aftur á mótaröðina árið 2018 með góðu gengi og vann sitt fyrsta mót í langan tíma á Tour Championship.

Rúmu hálfu ári síðar fagnaði Tiger sigri á Masters-mótinu, fyrsta risamóti ársins 2019.

Hann hefur átt í vandræðum utan vallar um árabil, bæði í einkalífinu og vegna meiðsla. Skilnaður hans og Elin Nordgren rataði í heimspressuna eftir að upp komst um framhjáhald Tiger.

Þá var Tiger gripinn sofandi undir stýri árið 2017 en þá hafði hann farið á mis við styrkleika verkjalyfja.