Valur fær ÍA í heimsókn á Origo-völlinn að Hlíðarenda í kvöld í fyrsta leik keppnistímabilsins á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla. Liðunum er spáð ólíku gengi, en á meðan flestir telja að Valur, sem er ríkjandi Íslandsmeistari, muni berjast um titilinn eru margir á því að Skagamenn verði í fallbaráttu.

Leikmenn ÍA eiga reyndar góðar minningar frá ferð sinni að Hlíðarenda frá því í fyrra þegar gestirnir af Skaganum unnu góðan 4-1 sigur. Sumarið 2019 vann svo ÍA, 2-1, í leik liðanna á Valsvellinum. Frá árinu 2000 hafa liðin mæst 26 sinnum í efstu deild. Valur hefur haft betur 12 sinnum, fjórum sinnum hafa liðin gert jafntefli og ÍA sigrað 10 sinnum.

Þó nokkrar breytingar hafa orðið í leikmannahópi Vals á milli leiktíða en Valgeir Lunddal Friðriksson, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Ein­ar Karl Ingvars­son, Ólaf­ur Karl Fin­sen, Lasse Pe­try, Kasper Högh og Aron Bjarna­son eru farnir frá félaginu.

Til að fylla þeirra skörð hafa Valsmenn fengið Jóhannes Vall, Christian Köhler, Almarr Ormars­son, Arn­ór Smára­son, Tryggva Hrafn Har­alds­son  og Kristó­fer Jóns­son.

Sterkir leikmenn farnir af Skaganum

Tryggvi Hrafn, sem skoraði 12 mörk fyrir Skagamenn í deildinni síðasta sumar, fótbrotnaði fyrr á þessu ári og verður ekki með í upphafi tímabilsins. Skagamaðurinn Arnór Smárason verður einnig fjarri góðu gamni í þessum leik.

Í herbúðum ÍA eru allir klárir í slaginn fyrir en Sindri Snær Magnússon er þó tæpur vegna ökklameiðsla. Skagaliðið hefur auk Tryggva misst Stefán Teit Þórðarson frá síðustu leiktíð. Tryggvi Hrafn og Stefán Teitur skoruðu 20 af 39 mörkum ÍA í deildinni síðustu sumar.

Skagamenn hafa hins vegar þétt raðir sínar með Dino Hodzic, Eli­as Tambur­in, Al­ex­and­er Dav­ey, Þórði Þor­steini Þórðar­syni, Hákoni Inga Jóns­syni og Eyþóri Aron Wöhler.

Vilhjálmur Alvar Þórarinssun mun flauta leikinn á klukkan 20.00 í kvöld.