Íþrótta- og tómstundasvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa ákveðið að leyfa meistaraflokkum og afreksíþróttafólki að hefja æfingar í íþróttamannvirkjum sveitarfélaganna.

Hvert sveitarfélag ákveður hvenær starfið getur hafist þar sem undirbúa þarf opnun íþróttahúsa með tilliti til starfsfólks og sóttvarnareglna sérsambanda. Þó hefst íþróttastarf barna fædd 2005 og síðar ekki að svo stöddu.

Fram kemur í tilkynningu frá Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) að tilgangurinn með þeirri frestun sé að forðast blöndun aðra en er til staðar í skólastarfi nú þegar.

Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur fagnar niðurstöðunni.

„Þetta er jákvætt skref fyrir íþróttafólk. Þetta er hægt. Við þurfum að fá samstöðu um reglurnar og hvaða hópar mega æfa og fara svo eftir þeim. Það væri skrýtið að einn hópur mætti æfa í líkamsræktarsal en annar hópur mætti ekki æfa á gervigrasvelli,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.

Fyrri í vikunni gaf almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins út að öll íþróttakennsla á vegum skóla myndi fara fram utandyra næstu daga af sóttvarnarástæðum. Þá hefur skólasund á höfuðborgarsvæðinu verið fellt niður.