Max Verstappen, ökuþór Red Bull Racing, er með forystuna í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í Formúlu 1 þegar fjórar keppnir eru eftir af tímabilinu. Með sigri um helgina gæti hann unnið sér inn gott andrými frá pressunni, sem fylgir því að leiða stigakeppni ökumanna.

„Verstappen er með tak á þessu akkúrat núna og Hamilton verður að ná að gera eitthvað í stöðunni í Brasilíu. Ef Verstappen vinnur í Brasilíu er hann með að minnsta kosti 26 stiga forystu á Hamilton. Það þýðir að Verstappen hefur efni á því að detta út í einni keppni án þess að eiga hættu á að missa efsta sætið í stigakeppni ökumanna,“ segir Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn, í samtali við Fréttablaðið.

„Það sem Hamilton vantar núna er sigur í Brasilíu og síðan þarf hann að byggja ofan á það. Ég tel að Brasilía gæti orðið mikilvægasta keppni tímabilsins,“ segir Kristján Einar. Hann telur Mercedes eiga séns á sigri um helgina. „Þeir hjá Mercedes eru búnir að vera að finna hraða sem gefur þeim góða von um að geta barist við Red Bull.“

Spennandi sprettkeppni

Mat margra Formúlu 1 áhugamanna er að ekki sé á spennuna bætandi um þessar mundir, en forráðamenn Formúlu 1 eru ósammála. Um helgina mun, líkt og á tveimur öðrum keppnishelgum fyrr á tímabilinu, fara fram sprettkeppni. „Í hinum tveimur keppnum tímabilsins þar sem hefur verið sprettkeppni hafa Hamilton og Verstappen lent saman. Brautin í Brasilíu býður upp á mikla baráttu milli bíla þannig að við gætum fengið algjört einvígi þeirra á milli.“

Brautin sem keppt verður á um helgina er einnig sú braut sem Max Verstappen og Lewis Hamilton ættu að þekkja best, en fjórar keppnir eru eftir. Brasilía núna og tvær keppnir í Katar og Sádí-Arabíu sem eru mikið spurningarmerki að mati Kristjáns. „Það hefur aldrei verið keppt á þeim brautum áður í Formúlu 1. Síðan er lokakeppnin í Abú Dabí og þar hafa verið gerðar breytingar á brautinni.“

Það er ljóst að spennustigið verður hátt um helgina en um er að ræða íþróttaviðburð sem fáir sem elska góða spennu í íþróttum ættu að missa af.

„Þetta er sögufræg braut þarna í Brasilíu. Það hafa verið svo margar goðsagnakenndar keppnir þarna. Þetta verður risastór keppni og hún gæti verið sú mikilvægasta á tímabilinu fyrir Lewis Hamilton en einnig fyrir Max Verstappen. Þarna getur hann komið sér í rosalega góða stöðu á toppnum,“ segir Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlu 1 á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn sem er á öllum helstu hlaðvarpsveitum.