Pólski markahrókurinn Robert Lewandowski hefur slitið viðræðum við forráðamenn Bayern um nýjan samning og vill komast frá félaginu í sumar.

Lewandowski sem hefur verið orðaður við Barcelona á eitt ár eftir af samningi sínum við þýsku meistarana.

Hann er búinn að tryggja sér sjöunda markakóngstitilinn og varð á dögunum þýskur meistari í tíunda skiptið.

Þýskir fjölmiðlar fullyrða í dag að Lewandowski þyrsti í nýja áskorun og sé um leið ósáttur með áhuga Bayern á Erling Braut Haaland, sóknarmanni Dortmund sem fer til Manchester City í sumar.

Lewandowski hefur skorað 237 mörk í 252 leikjum fyrir Bayern í deildarkeppninni og alls 343 mörk í 374 leikjum í öllum keppnum.