Stuðningsmenn ÍBV létu öllum illum látum eftir viðureign ÍBV gegn FH í átta liða úrslitum bikarsins í handbolta á fimmtudag. Eftir leik ruddist hópur stuðningsmanna að klefa gestanna, hamraði á klefahurðina og söng niðrandi söngva auk þess að kalla leikmenn öllum illum nöfnum. Íþróttafréttamaðurinn Guðjón Guðmundsson vakti athygli á málinu á Twitter eftir leikinn sem lauk með sigri ÍBV.

„Það ku hafa verið senur í Coca-Cola bikarnum í Vestmannaeyjum. Klefi FH-inga umsetinn eftir leik. Einhverjir voru með myndir af mæðrum FH-inga í stúkunni með skrýtnum skilaboðum. Ef satt reynist þá erum við á villigötum. Njótum leiksins sem er og var frábær. Eina,“ sagði Guðjón.

FH-ingar vildu sem minnst um málið tala þegar eftir því var leitað. Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildarinnar, varðist fimlega þegar hann var spurður út í tístið og sannleiksgildið. „Ég verð að segja bara nó komment.“

Stuðningsmenn ÍBV ruddust að klefa FH. Fréttablaðið/Andri Marinó

Leikmenn voru þó aðeins málglaðari og staðfestu tístið. Sögðu það allt satt og rétt. „Þeir voru með myndir af mæðrum okkar í stúkunni og voru búnir að skrifa alls konar skilaboð á þær myndir. Það angraði mann lítið í leiknum. Eftir leik fórum við inn í klefa og þá voru læti í þeim, einhverjir 15-20 að berja á hurðina, segja að við værum aumingjar og fleira,“ sagði einn.

Annar staðfesti þá sögu og sá þriðji sagði að nokkrir áhorfendur hefðu verið komnir fyrir framan auglýsingaskiltin meðan á leik stóð. „Þetta var komið út yfir öll mörk.“

Róbert Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði að málið væri komið inn á borð til sín og nú færi af stað vinna til að afla frekari gagna. „Við höfum heyrt að eitthvað hafi gengið á eftir bikarleik ÍBV gegn FH. Við höfum fengið skýrslu frá eftirlitsdómara og erum að afla frekari gagna áður en málið verður tekið fyrir hjá okkur.“

Hvíti riddarinn, stuðningsmannasveit ÍBV í handboltanum, hefur áður komið sér í fjölmiðla fyrir skrílslæti. Eftir að hafa tafið undanúrslitaleik Hauka og ÍBV árið 2016 með því að henda klósettpappír inn á völlinn sagði RÚV í frétt sinni um málið: „Þeir hafa áður komist í fréttirnar fyrir hegðun sína á áhorfendapöllum,“ án þess að fara nánar út í þá sálma.

Tryggvi Rafnsson, leikari og kosningastjóri fyrir Framsókn og óháða í Hafnarfjarðarbæ, blandaði sér í umræðuna hjá Guðjóni og sagði: „Virkilega leiðinlegt að það sé ekki fullorðið fólk sem grípi inn í svona hegðun.“ Undir þessi orð tekur Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna og Eyjamaður, þó ekki og segir einfaldlega: „Æi, kommon.“