Japanska tenniskonan Naomi Osaka fékk að heyra það frá ótillitsömum áhorfanda á Indian Wells tennismótinu í síðustu viku sem hafði þær afleiðingar að hún brotnaði saman

Osaka laut í lægra haldi fyrir Veroniku Kudermetovu í þriðju umferð mótsins. Hún tapaði fyrsta settinu í viðureigninni 6-0 og í kjölfarið heyrðust hróp úr áhorfendastúkunni. ,,Naomi, þú sökkar!" voru skilaboðin.

Osaka hefur talað opinskátt um andlega heilsu sína og á síðasta ári tók hún sér pásu frá tennisiðkun til þess að einbeita sér að andlegu heilsu sinni.

Í kjölfar niðrandi hrópa bað Osaka um að viðkomandi áhorfandi yrði fjarlægður. Hún bað síðan um að fá tækifæri til þess að ávarpa áhorfendur á vellinum en þessum báðum beiðnum var hafnað.

Osaka fékk hins vegar tækifæri til þess að ávarpa áhorfendur eftir viðureign hennar við Veroniku.

,,Ég vildi bara segja takk við ykkur. Ég hef orðið fyrir aðkasti áður og ég hef horft á myndband þar sem að Serena og Venus Williams urðu fyrir aðkasti á þessum velli. Ég veit ekki af hverju en þetta náði bara til mín," sagði Osaka en hún hlaut mikinn stuðning frá áhorfendum eftir viðureignina.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.