Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal bauð upp á heldur óvenjulega leið til þess að gíra leikmenn sína upp fyrir Norður-Lundúna slaginn gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Myndbrot úr heimildaþáttaröðinni All or Nothing þar sem fylgst er með Arsenal á síðasta tímabili varpar ljósi á það þegar Arteta bað ljósmyndara félagsins um að halda liðsræðuna fyrir leikinn mikilvæga gegn Tottenham.

Sá heitir Stuart MacFarlane. Hann hefur starfað hjá Arsenal í yfir 30 ár og er mikill stuðningsmaður félagsins. Í myndbrotinu má sjá Stuart halda þrumuræðu yfir leikmönnum Arsenal, minna þá á hversu miklu máli leikurinn skiptir fyrir stuðningsmenn félagsins.

Þetta útspil Arteta gekk upp. Arsenal komst í stöðuna 3-0 á innan við 35 mínútum og sigldi síðan heim sigri.

Heimildaþáttaröðin All or Nothing þar sem fylgst er með síðasta tímabili Arsenal kemur út á morgun. Hægt er að nálgast hana á streymisveitu Amazon Prime.