Lamar Jack­son, leik­stjórnandi NFL-liðsins Baltimor­e Ra­vens gerði góð­verk á dögunum er hann lét draum rætast hjá ungum stuðnings­manni sínum, Landon Berry sem glímir við hjarta­sjúk­dóm. Faðir Landons varpar ljósi á góð­verk Jack­son í færslu sem hann birti á Face­book en Landon grét af gleði er leik­maðurinn birtist.

Jason Berry, faðir Landon Berry segir að­draganda hittingsins teygja sig eitt ár aftur í tímann „þegar Landon sagði mér að upp­á­halds lið sitt væri Baltimor­e Ra­vens.“

Á­stæðan fyrir því var sú að Landon hafði hrifist af spila­mennsku Lamar Jack­son, leik­stjórnanda liðsins. „Hann er al­gjört skrímsli inn á vellinum," sagði Landon við föður sinn.

Jason segir son sinn hafa talað um það í tíma og ó­tíma hversu mikið hann væri til í að hitta téðan Lamar Jack­son. „Svo ég fór að hugsa hvernig ég gæti reynt að láta þann draum hans rætast.

Hann hafi horft á leikja­dag­skrá Baltimor­e Ra­vens fram í tímann og séð að þeir ættu leik gegn New Or­leans Saints þann 7. nóvember. Feðgarnir búa í New Or­leans og sjálfur er Jason stuðnings­maður Saints en hann leit ekki á það sem fyrir­stöðu.

Jason byrjaði á því að senda tölvu­póst, bæði til full­trúa Ra­vens og Saints sem og öll þau sem honum datt í hug að gætu hjálpað. Á endanum fékk hans svar og það var já­kvætt.

„Ég hélt að það myndi líða yfir mig vegna þess að draumur sonar míns var að fara rætast.“

Það var síðan fyrir tveimur dögum síðan sem draumur Landon Berry rættist og hann fékk að hitta hetjuna sína Lamar Jack­son í eigin per­sónu. Tárin byrjuðu að streyma niður kinnar Landons, af gleði, og fékk hann meðal annars að kasta bolta á milli með hetjunni sinni.