Maður á gangi í nágrenni Geldrop kastalans í Hollandi lét lífið eftir að hafa fengið 10 kílóa hamar í höfuðið. Þátttakandi í hamarskasti á Hálandaleikunum sem haldnir voru við kastalann hafði hent hamrinum en hann fór út fyrir brautarmörk og hæfði manninn.

Greint er frá málinu á hollenska vefmiðlinum Omroep Brabant þar sem einstaklingur sem varð vitni að atvikinu tjáði sig. Sá segir hamarinn hafa flogið yfir nærliggjandi runna eftir umrætt kast. Stuttu seinna hafi heyrst hátt óp frá konu.

Hamarinn hafði þá lent á höfði manns sem var á gangi við Geldrop kastalann, sá hafði ekki verið áhorfandi á leikunum. Kallað var eftir aðstoð þyrlu og annars björgunarliðs um leið en endurlífgunartilraunir á staðnum skiluðu ekki árangri. Maðurinn var stuttu seinna úrskurðaður látinn á vettvangi.

Umræddur hamar lýsir sér sem löng járnstöng með tæplega 10 kílóa jarnkúlu á endanum og er þekkt áhald á Hálalandaleikunum sem eiga rætur sínar í Skotlandi. Þar er keppt í ýmsum aflraunagreinum.