Líkt og greint var frá í morgun tileinkaði Marcus Rashford, leikmaður enska landsliðsins í knattspyrnu, nýlátnum vini sínum fyrsta mark sitt í leik gegn Wales á HM í Katar í gær en sá hafði látið lífið nokkrum dögum áður.

Nú hafa enskir miðlar greint frá því að umræddur vinur Rashfords sé hinn 35 ára gamli Garfield Hayward og er honum lýst sem afar góðum dreng sem allir í Manchesterborg hafi elskað.

England tryggði sér í gærkvöldi sæti í 16-liða úrslitum HM í Katar með 3-0 sigri á Wales. Rashford skoraði tvö mörk í leiknum og tileinkaði Garfield fyrra markið með fagni þar sem hann fór niður á hné og benti með vísifingrum beggja handa upp til himins.

Rashford hafði frétt af andláti Garfields nokkrum dögum fyrir umræddan leik gegn Wales og segir Garfield ávallt hafa stutt við bakið á sér.

,,Hann var bara svo frábær manneskja og ég er ánægður með að hann hafi verið hluti af mínu lífi."