Síðast þegar Ísland mætti Alsír lentu Strákarnir okkar í bölvuðu basli framan af leiks en náðu að lokum að snúa leiknum sér í hag og vinna átta marka sigur.

Tveimur dögum eftir átta marka tap gegn Svíum lenti Ísland sex mörkum undir á fyrstu sjö mínútum leiksins.

„Þeir hefðu aldrei skorað sex mörk ef þeir hefðu ekki keyrt í bakið á okkur eftir hvert klúðrið á fætur öðru hjá okkur,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson í samtali við Fréttablaðið eftir leikinn.

Alsír var með frumkvæðið út fyrri hálfleikinn en góður 19-10 kafli Íslands skildi liðin að þar sem Aron Pálmarsson fór á kostum.

Á þeim tíma kom Aron að fjórtán að nítján mörkum Íslands með fimm mörk, sjö stoðsendingar og tvö fiskuð víti.