Seinbúið áhlaup Íslands dugði ekki til í naumu tveggja stiga tapi 78-80 gegn Kósovó í fyrsta leik Íslands í undankeppni HM 2023.

Ísland var skrefinu á eftir Kósovó stærstan hluta leiksins en tókst að halda í við heimamenn og halda spennu í leiknum fram á lokasekúndurnar.

Næsti leikur Íslands er gegn Slóvakíu á sunnudaginn sem vann átta stiga sigur 73-65 á Lúxemborg á heimavelli sínum í dag.

Það var ljóst að það yrði á brattan að sækja í kvöld fyrir íslenska liðið. Burðarstólpar liðsins undanfarin ár voru fjarverandi og það var því reynslulítið lið sem hóf leikinn.

Reynsluleysið virtist sitja í mönnum í upphafi leiks því Kósovó byrjaði leikinn af krafti og voru heimamenn fljótir að ná tíu stiga forskoti.

Það sló íslenska liðið ekki út af laginu og tókst Íslandi að saxa á forskot Kósovó með sex stigum undir lok fyrri hálfleiks.

Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum sem skiptust á körfum og með því forskotinu.

Ísland komst yfir bæði í upphafi þriðja og fjórða leikhluta en góð hittni heimamanna fyrir utan þriggja stiga línuna gaf Kósovó sjö stiga forskot á ný.

Strákunum okkar tókst að minnka muninn niður í tvö stig en höfðu ekki tíma til að jafna metin og lauk leiknum því með tveggja stiga sigri.

Kári Jónsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 21 stig og Sigtryggur Arnar Björnsson bætti við 20 stigum. Þá var Tryggvi Hlinarson með 16 stig og tólf fráköst.