Manchester United er að leggja lokahönd á kaup á tveimur hollenskum landsliðsmönnum sem verða fyrstu leikmennirnir sem Hollendingurinn Erik ten Hag fær til félagsins.

Viðræður við Barcelona um kaupverðið á Frenkie de Jong þokast áfram og eru á lokastigi. Viðræðurnar hafa staðið yfir undanfarnar vikur en það virðist tímaspursmál hvenær samningur næst.

Þá er félagið búið að blanda sér í baráttuna um Tyrell Malacia, vinstri bakvörð Feyenoord sem var í viðræðum við franska félagið Lyon.

Um er að ræða tvo leikmenn sem ten Hag þekkir vel eftir að hafa unnið með de Jong hjá Ajax og mætt Feyenoord með Malacia innanborðs margoft.