Danijel Dejan Djuric er mættur í Víking Reykjavík en félagið staðfesti þetta nú rétt í þessu á blaðamannafundi í Víkinni. Hinn 19 ára gamli Danijel kemur á frjálsri sölu frá danska úrvalsdeildarliðinu FC Midtjylland.

„Mér líður mjög vel. Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum. Þetta verður mjög gaman,“ segir Danijel í viðtali við Fréttablaðið/433.is í dag.

Hann var spurður út í það af hverju hann ákvað að koma heim til Íslands frá Midtjylland á þessum tímapunkti. „Pælingin er að spila fullorðinsfótbolta. Mér finnst ég geta fengið það allt hér í Víkingi.“

„Mig langar að vinna alla leiki. Persónulega vil ég sýna fólki, verða „household name“ eins og Kristall gerði.“

Hann segir að önnur félög hafi komið til greina, meðal annars Breiðablik.

„Það kom fullt af liðum til greina. Ég var búinn að æfa með Blikunum en mér leið bara miklu betur með Víking og leist miklu betur á Víking.“