Spænski landsliðsmarkvörðuinn David de Gea þurfti að fara af velli í leik spænska liðsins gegn Svíþjóð í undankeppni EM 2020 í knattspyrnu karla sem fram fór á Friends Arena í kvöld.

De Gea varð fyrir meiðslum í nára og Kepa Arrizabalaga leysti hann af hólmi eftir um það bil klukkutíma leik.

Lokatölur í leikum urðu 1-1 en það var Marcus Berg sem kom Svíum yfir og Rodrigo jafnaði metin fyrir Spán í uppbótartíma leiksins.

Spánverjar eru komnir langleiðina á lokamótið en liðið er á toppi F-riðils undankeppninnar með 20 stig þegar tvær umferðir eru eftir.

Svíþjóð kemur þar á eftir með 15 stig, Rúmenía er með 14 stig í þriðja sæti og Noregur situr í fjórða sæti með 11 stig.

Ekki er víst hvor meiðslin séu svo alvarleg að hann verði fjarri góðu gamni þegar Manchester United fær Liverpool í heimsókn á Old Trafford í níundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn kemur.