Leikur Danmerkur gegn Finnlandi í Evrópukeppninni í fótbolta karla fer fram í kvöld en leiknum var frestað fyrr í dag eftir að Christian Eriksen, leikmaður Dana, hneig niður skömmu fyrir hálfleik.

Eriksen var fluttur á spítala í kjölfarið og er ástand hans nú sagt stöðugt. Hann er vakandi og hefur rætt við liðsfélaga sína, að því er kemur fram í frétt DR um málið.

Óska Erikson skjótum bata

Að því er kemur fram í tilkynningu frá UEFA um málið mun leikurinn fara fram klukkan 18:30 í kvöld að íslenskum tíma, að ósk bæði danska og finnska liðsins.

Þar sem leikurinn var stöðvaður þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar leikurinn var stöðvaður munu liðin leika síðustu fjórar mínúturnar og seinni hálfleikinn, eftir fimm mínútna hálfleikspásu.

„UEFA óskar Christian Eriksen fullum og skjótum bata og vill þakka báðum liðum fyrir fyrirmyndarviðhorf,“ segir í tilkynningunni.

Leikur Rússa og Belga mun fara fram samkvæmt áætlun klukkan 19 að íslenskum tíma.